Íslenska sem annað mál

Kennsluferlillinn í íslensku sem öðru máli hófst hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri haustið 1998.

  • Fyrst í kvöldskóla á íslenskunámskeiðum í fullorðinsfræðslu.
  • Síðar í dagsskóla í ÍSA-áföngum.

Eftir stutt hlé frá annarsmálskennslu íslensku tók ég þráðinn upp aftur haustið 2010. Það var við Menntaskólann í Kópavogi þar sem ég kenndi eina önn.

Aðalstarf frá 2011

Kennsla í íslensku sem öðru máli hefur verið aðalstarf mitt frá upphafi ársins 2011 en þá hóf ég störf hjá Mími símenntun.

Bækurnar Íslenska fyrir alla
Bækurnar Íslenska fyrir alla eftir Sólborgu Jónsdóttur og Þorbjörgu Halldórsdóttur

Námskeiðin sem ég hef kennt eru eftirtalin:

  • fjarnámskeið í Íslensku fyrir alla á 4. og 5. stigi
  • Íslenska fyrir alla á stigum 1-6
  • íslenskuhlutinn í Landnemaskólanum.

Auk þess hef ég séð um íslenskuhlutann á námsleiðunum Vinna með börnum og Þjónustuliðanám.

Íslenskukennsla hjá Mími fer fram á þremur stöðum: Höfðabakka 9, Öldugötu 23 og Gerðubergi í Breiðholti. Auk þess hefur verið boðið upp á íslenskukennslu á vinnustöðum. Kennarar þurfa þar af leiðandi að vera sveigjanlegir hvað kennsluaðstæður varðar og hugmyndaríkir í sambandi við það hvernig þær verða best nýttar.

Vinnustaðirnir sem ég hef kennt á eru Actavis og Reykjavíkurborg. Svo hef ég kennt á vinnustaðanámskeiðum fyrir Landspítalann.

Fjarnám í íslensku

Haustið 2016 var farið af stað með fjarnámskeið í Íslensku fyrir alla á 4. stigi hjá Mími símenntun. Verkefnið hlaut styrk úr Fræðslusjóði framhaldsfræðslunnar og var ég ráðin til að setja námskeiðið upp og kenna það. Námsumsjónarkerfið sem ég notaði er Moodle sem er sennilega þekktasta námsumsjónarkerfið í dag. BigBlueButton er notað til fjarfunda en þeir voru haldnir einu sinni í viku.

Fyrsti fjarnámshópurinn útskrifaðist 15. desember 2016 og annar á svipuðum tíma 2017. Nú hefur 5. stiginu verið bætt við og útskrifaðist fyrsti hópurinn sumarið 2017. Ekki hefur orðið af frekara framhaldi á fjarnáminu enn þá.

Uppfært 20. febrúar 2019