„Algjör himnasending“

Niðurstöður könnunar á reynslu þeirra sem nota myndorðaspjöld Íslenskunámunnar, og annað námsefni hennar, eru ekki aðeins jákvæðar heldur líka athyglisverðar. Hér verða aðeins birtar áhugaverðustu niðurstöðurnar en krækja sett í lokaskýrsluna þegar hún liggur fyrir.

Tilefni könnunarinnar er vöruþróunarstyrkur sem Íslenskunáman hlaut frá Atvinnumálum kvenna sumarið 2018. Könnunin fór fram dagana 30. janúar til 10. febrúar 2019. Þeir sem svöruðu voru 74 en þrír þeirra höfðu aldrei notað spjöldin. Þeir og 31 til viðbótar höfðu heldur ekki notað annað námsefni Íslenskunámunnar.


Þú getur valið hvað þú lest næst


Mikið notagildi og enn þá meiri gagnsemi

Þátttakendur könnunarinnar voru beðnir um að meta hversu vel myndorðaspjöldin nýttast.

 • Annars vegar þeim sjálfum í þeirra starfi
 • Hins vegar í námi nemenda þeirra eða skjólstæðinga

Af þeim 71 sem hafa notað Nafnorða- og sagnorðaspjöldin sögðu 89% að þau nýttust þeim vel eða mjög vel í þeirra starfi. 94% sögðu að þau væru frekar eða mjög gagnleg í námi nemenda þeirra og/eða skjólstæðinga.

Hversu oft eru spjöldin notuð?

Þátttakendur voru spurðir um það hversu oft viðkomandi notaði myndorðaspjöldin. Möguleikarnir voru fimm.

71 af 74 svarendum sögðust nota Nafnorða- og sagnorðaspjöldin

Rúmlega helmingur þátttakenda, eða 54%, sagðist nota Nafnorða- og sagnorðaspjöldin vikulega eða oftar. 42% nota þau mánaðarlega eða sjaldnar en 4% sagðist aldrei hafa notað þau.

Hverjir eru notendur?

Notendahópur myndorðaspjaldanna er fjölbreyttur en markhópur könnunarinnar voru eingöngu þeir sem nýta þau með nemendum og/eða skjólstæðingum. Miðað við niðurstöðurnar endurspegla þátttakendurnir vel þann hóp sem hefur keypt spjöldin til notkunar við kennslu og annars konar mál- og/eða tungumálaþjálfun.

Starfssvið notenda
Starfssvið þeirra 71 sem sögðust nota Nafnorða- og sagnorðaspjöldin

Eins og myndin gefur til kynna eru sérkennarar langstærsti notendahópurinn miðað við niðurstöður könnunarinnar. Næst eru það þeir sem kenna og/eða leiðbeina fullorðnum sem eru að læra íslensku sem annað mál. Þar á meðal eru tveir einyrkjar og tveir sjálboðaliðar sem starfa á vegum sjálfboðaliðasamtaka sem bjóða upp á íslenskuþjálfun.

Talmeinafræðingarnir og grunnskólakennararnir sem nota myndorðaspjöldin og tóku þátt í könnuninni eru jafnmargir. Þá þroskaþjálfar, framhaldsskólakennarar og leiðbeinendur í grunnskóla.

Hvar eru myndorðaspjöldin notuð?

Þegar notendahópurinn er skoðaður út frá starfsvettvangi kemur í ljós að langflest svörin bárust frá þeim sem starfa í grunnskóla. Það er líka í fullu samræmi við það að 132 kassar af 250 seldum myndorðakössum hafa farið þangað.

Grunnskólanum tengjast líka fjölbreyttustu starfssviðin miðað við það sem kemur fram í könnuninni. Þeir sem nota myndorðaspjöldin þar dreifast þannig:

 • sérkennarar
 • sérkennari og íslenskufræðingur
 • grunnskólakennarar
 • kennari í íslensku sem öðru máli (talin hér með sérkennurum)
 • þroskaþjálfar
 • leiðbeinandi
 • leiðbeinandi sem vinnur sem sérkennari (talin hér með leiðbeinendum)

Næst á eftir grunnskólanum koma símenntunar- og endurmenntunarmiðstöðvar, talmeina- og endurhæfingarstöðvar, framhaldsskólar, leikskólar og sjálfboðaliðasamtök.

Einyrkjar hafa líka verið stór hluti kaupenda en margir þeirra starfa á vettvangi þeirra stofnana þar sem þátttakendur sögðust vinna. Þær og annar starfsvettvangur sem var talinn koma fram á næstu mynd.

starfsvettvangur notenda
Einn talmeinafræðingur sagðist vinna á sjúkrastofnun og er það skýringin á 9+1

Aðeins ein endurhæfingarstöð eða -deild hefur keypt myndorðaspjöldin. Í stað þess að telja hana sér er hún talin með talmeinastöðvum hér eftir. Annað sem er rétt að skýra er að eingöngu 5 leikskólar og 9 framhaldsskólar hafa keypt Nafnorða- og sagnorðaspjöldin.

Fjórir starfsmenn leikskóla svöruðu en einn, leikskólakennari, sagist aldrei hafa notað spjöldin. Tveir þroskaþjálfar og einn sérkennari sem starfa á leikskóla svöruðu hins vegar könnuninni. Þátttakendur sem kenna í framhaldsskóla eru einn sérkennari og þrír íslenskukennarar.

Einyrkjarnir eru tveir þroskaþjálfar, einn einkakennari og annar sjálfstætt starfandi en hann er búsettur erlendis og kennir samlöndum sínum íslensku sem annað tungumál. Þrír þátttakendur tóku fram tvöfalt hlutverk:

 • Einn talmeinafræðingur sagðist líka vinna í leik- og grunnskóla
 • Einn kennari hjá símenntunarmiðstöð sagðist líka kenna í grunnskóla
 • Tveir kennarar hjá símennunarmiðstöðvum sögðust líka taka nemendur í einkatíma

Hvar eru notendur búsettir?

Þátttakendur voru beðnir að svara tveimur spurningum um bakgrunn. Annars vegar spurningu um starfssvið og starfsvettvang og hins vegar um búsetu. Upplýsingarnar um búsetu þátttakenda koma fram á myndinni hér fyrir neðan ásamt upplýsingum úr bókhaldsgögnum um  sölutölur og dreifingu á Nafnorða- og sagnorðaspjöldunum.

Langflestir kaupendur og svarendur eru á höfuðbogarsvæðinu

Bláu súlurnar á myndinni sýna fjölda kaupenda á hverju landssvæði. Þær appelsínugulu fjölda kassa og gráu súlurnar fjölda svarenda. Það er fullt samræmi á milli þess að flestir þátttakendur könnunarinnar koma af höfuðborgarsvæðinu og þess að flestir kassarnir hafa selst þar.

Svarhlutfallið er hins vegar langbest á Suðurlandi og Vesturlandi þegar fjöldi svarenda og kaupenda er borinn saman.

Hvernig eru myndorðaspjöldin notuð?

Þátttakendur voru spurðir um tilgang notkunar á Nafnorða- og sagnorðaspjöldunum og fengu tíu möguleika auk þess sem þeir höfðu tækifæri til að bæta við fleirum. Það mátti haka við þá sem áttu við. Allir möguleikarnir fengu einhverja svörun en mismikla eins og kemur fram á næstu mynd.

Nafnorða- og sagnorðaspjöldin bjóða greinilega upp á margs konar möguleika

Ef niðurstöðurnar, sem koma fram á myndinni hér að ofan, eru settar fram í prósentum líta þær svona út:

 • 92% byggja upp orðaforða
 • 60% til að bjóða upp á fjölbreytni í kennsluaðferðum
 • 60% æfa málfræði
 • 56% til að búa til setningar
 • 49% örva málskilning
 • 41% til að gera kennsluna meira lifandi

Sérkennarar og þeir sem starfa á sviði fullorðinsfræðslu eru þeir notendahópar sem nýta myndorðaspjöldin á fjölbreytilegasta mátann. Talmeinafræðingar eru líklegastir til að nýta þau til að láta skjólstæðinga sína eða nemendur búa til setningar en þroskaþjálfar til að að örva málskilning.

Það voru ekki margir sem bættu við öðrum möguleikum. Hér eru þrír gullmolar:

„Til að hjálpa börnum út úr tungumálaskelinni með leik. Oft eru þau feimin en brjótast frekar út í leik.“ (sérkennari í grunnskóla)

„Ýmis, t.d. í „Lubbavinnu“ – gefur góðan og skemmtilegan orðabanka, og ég nota spilin á fjölbreyttan hátt í alls kyns heimatilbúnum leikjum, með leikskólanemendum og grunnskólanemendum.“ (sérkennari í grunnskóla)

„Þegar nemendur hafa klárað Ég vil læra íslensku-heftin frá Kötluvef er gott að nýta þau til að fara yfir orðaforðann.“ (leiðbeinandi í grunnskóla)

Veflægt námsefni Íslenskunámunnar

Þátttaka í seinni hluta könnunarinnar var valfrjáls. 70 af 74 þátttakendum héldu áfram en svöruðu mismörgum spuningum í þessum hluta þar sem spurt var um samfélagsmiðla og annað námsefni Íslenskunámunnar.

Fæstir svöruðu spurningunni um það hvort þeir notuðu annað námsefni Íslenskunámunnar eða 40. Það eru 54% af öllum þátttakendum.

Útprentanlegu æfingarnar sem tengjast myndorðaspjöldunum eru mest notaðar

Það eru augljóslega ekki margir sem nota gagnvirku æfingarnar en langflestir nota útprentanlegu sagnorða- og nafnorðaæfingarnar. Það er ekki síður forvitnilegt að sjá hverjir nýta þetta efni.

Allir sem kenna/leiðbeina fullorðnum í íslensku sem öðru máli eru hafðir saman

Þeir notendahópar sem nýta þetta efni mest eru þeir sem sinna fullorðinsfræðslu á ýmsum vettvangi. Þá koma grunnskólakennarar og sérkennarar í grunnskólum. Þroskaþjálfarnir tveir sem nýta þetta efni eru líka í grunnskólanum.

Þrír þátttakendur í könnuninni nýttu opna spurningu í lokin til að koma því að, að þeir hefðu annaðhvort ekki skoðað vefsíðu Íslenskunámunnar enn þá eða ekki verið meðvitaðir um það að hún væri á Netinu.

„Ég fékk kassann inn í námsverið mitt í fyrrahaust og hreinlega vissi ekki af vefsíðunni, verkefnunum, facebook o.fl. 🙂 Mun skoða þetta núna í framhaldi og hlakka til að sjá hvort kassinn nýtist mér betur í tengslum við það.“ (sérkennari í grunnskóla)

„Með þessari könnun var athygli mín vakin á efni Íslenskunámunnar á netinu og mun ég skoða það nánar og örugglega nýta mér það í kennslu.“ (sérkennari í grunnskóla)

Íslenskunáman á samfélagsmiðlum

Íslenskunáman er bæði á Facebook og Pinterest. Þátttakendur voru beðnir um að svara því hvort þeir fylgdust með henni þar. 70 af 74 þátttakendum svöruðu þessari spurningu.

 • 7% svarenda fylgjast með Íslenskunámunni bæði á Facebook og Pinterest
 • 63% fylgjast með henni eingöngu á Facebook
 • 30% svarenda fylgjast ekki með Íslenskunámunni á samfélagsmiðlum

Eins og kom fram hér á undan voru að minnsta kosti einhverjir sem voru ekki meðvitaðir um að Íslenskunáman væri á þessum miðlum.

Marktækni niðurstaðnanna

Könnunin náði vissulega til fleiri þátta. Niðurstöðurnar sem eru raktar hér varða einkum reynslu og notkun starfsmanna og fagstétta í skólum, á símenntunarmiðstövum, talmeina- og endurhæfingarstöð og á vettvangi sjálfboðaliðasamtaka af Nafnorða- og sagnorðaspjöldunum.

Niðurstöðurnar lýsa almennri ángæju notenda hvað varðar notagildi og gagnsemi bæði fyrir þá sjálfa og ekki síður nemendur þeirra og skjólstæðinga. Það er alveg leyfilegt að draga marktækni niðurstaðnanna í efa og þá einkum hvort myndorðaspjöldin nýtist í leikskólum og framhaldsskólum.

Hins vegar má benda á að niðurstöðurnar gefa ákveðnar vísbendingar um að Nafnorða- og sagnorðaspjöldin nýtist bæði starfsfólki og fagstéttum sem vinna með nemendum og skjólstæðingum á öllum aldri.

Gersemarnar í lokaorðunum

Þátttakendum gafst kostur á að koma með ábendingar um það hverju þeir vildu breyta í sambandi við Nafnorða- og sagnorðaspjöldin. 24 nýttu þetta tækifæri til opins svars. Svörin voru alls konar.

 • Sumir notuðu tækifærið til að segja að þeir vildu engu breyta
 • Nokkrir komu með hugmyndir að viðbótum
 • Flestir komu með athugasemdir varðandi hönnun annaðhvort á kassanum eða myndunum

Þessi svör eru sannarlega dýrmæt fyrir næstu skref Íslenskunámunnar. Hér er hins vegar eitt sem getur hugsanlega nýst notendum myndorðaspjaldanna sem eru þegar komin í umferð:

„Kassinn er alveg í það minnsta svo ég hef sett spjöldin í gamlan kassa undan disklingum.“ (sérkennari í grunnskóla)

Tveir svarendur nýttu þetta tækifæri til að koma þessum demöntum á framfæri:

„Finnst [myndorðaspjöldin] flott. Góð stærð, gott efnið í þeim, aðlaðandi. (kennir fullorðnum íslensku sem annað mál)

„Myndirnar eru frábærar. Var búin að leita töluvert af alls konar myndefni fyrir mína sérkennsluvinnu þegar þessi kassi kom. Algjör himnasending. (sérkennari í grunnskóla)

Í opinni spurningu í lok könnunarinnar var þátttakendum boðið að nefna eitthvað að lokum. Ábendingarnar vörðuðu einkum atriði sem var spurt um í seinni hlutanum. Tveir nýttu tækifærið til að hæla efninu og þakka fyrir sig:

„Frábært efni, kveðja XXX.“ (grunnskólakennari)

Takk, fyrir að búa til þetta dásamlega námsefni.“ (kennir fullorðnum íslensku sem annað mál)

Uppfært 18. febrúar 2019

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s