Nafnorð

Undir krækjunum hér að neðan eru  pdf-skjöl sem þér er frjálst að prenta út og nota.

 • Byrjendaæfingarnar eru fyrir 1. stigið. Þær eru úr a-kvenkyns- og i-karlkynsnafnorðunum
 • Þolfallsæfingarnar eru fyrir 1.-3. stig og eru úr fimm algengustu beygingarflokkunum
 • Þolfalls- og þágufallsæfingarnar
  • Matur fyrir 2.-3. stig
  • Föt fyrir 5.-6. stig
 • Þágufallsæfingarnar eru fyrir 4.-6. stig
  • Fyrsta er blanda af nafnorðum og persónufornöfnum. Flest nafnorðin eru með greini
  • Næstu tvær innihalda eingöngu nafnorð en ýmis með eða án greinis. Svo kemur fleirtalan fyrir í báðum

Nefnifall

Nafnorð með og án greinis (1. stig)

Greinirinn (1. stig)

Þolfall

Matur (1. stig)

Sagnir og þolfall án greinis I (2. stig)

Forsetningar og þolfall án greinis (2. stig)

Sagnir og þolfall án greinis II (2.-3. stig)

Forsetningar og þolfall með greini (2.-3. stig)

Sagnir og þolfall með greini (3. stig)

Þolfallið með greini (3. stig)

Þolfall og þágufall

Matur með einhverju (2.-3. stig)

Föt (4.-6. stig)

Þágufall

Nokkrar algengar sagnir sem stýra þágufalli (4. stig)

Sagnir og óalgengari beygingarflokkar (4.-6. stig)

Forsetningar og óalgengari beygingarflokkar (5.-6. stig)

Áður en æfingarnar eru lagðar fyrir þarf að fara í efnið sem þær reyna á. Hér á eftir eru kennsluhugmyndir og -leiðbeiningar sem geta nýst en þær miðast við nafnorðaspjöldin. Verkefnin hafa orðið til í samhengi við þau. Þess ber að geta að engin myndorðaspjöld hafa enn verið gefin út fyrir óalgengari beygingarflokkana.

Algengustu beygingarflokkar nafnorða

Það er misjafnt eftir því hver telur, hvað beygingarflokkar nafnorða eru margir. Í kennslu íslensku sem öðru máli er best að byrja á algengustu beygingarflokkunum. Það er tveimur til þremur beygingarflokkum karlkynsorða, einum til tveimur flokkum kvenkynsorða og tveimur flokkum hvorugkynsorða.

Hér eru sjö beygingarflokkar nafnorða sýndir með því að gefa upp kyn og endingar í nefnifalli eintölu og fleirtölu.

Það er engin hefð fyrir því að tala um beygingu nafnorða öðru vísi en tala um veika – og sterka beygingu þeirra. Slík flokkun er ekki líkleg til að styðja við íslenskunám þeirra sem eru að læra málið sem annað mál. Það er þess vegna ekki úr vegi að stinga upp á því að tala um:

 • i-karlkynsorð
 • ur-karlkynsorð
 • a-kvenkynsorð
 • endingarlaus kvenkynsorð
 • endingarlaus hvorugkynsorð
 • i-hvorugkynsorð

Þessi flokkun leysir ekki allan vanda þar sem hún þarfnast frekari skýringa en er þó líklegri til að styðja við nám þeirra sem eru að læra íslensku sem annað mál en sú hefðbundna.

Það eru til endingarlaus nafnorð í öllum kynjum, orð sem enda á -i og -ur eru líka til í öllum kynjum þó það sé algengast að orð sem hafa þessar endingar séu í karlkyni. Í hvorugkyninu eru líka nokkur orð sem enda á -a. Hér eru hins vegar alls ekki allir beygingarflokkar nafnorða nefndir.

Að þekkja kynin með því að nota fleirtöluna

Í byrjun er þægilegast að einbeita sér að fimm beygingarflokkum nafnorða:

 • i-karlkynsorðum
 • ur-karlkynsorðum
 • a-kvenkynsorðum
 • endingarlausum hvorugkynsorðum
 • i-hvorugkynsorðum

Þá er lögð áhersla á að það sem greinir hvorugkynið frá öðrum flokkum er að orðin eru eins í eintölu og fleirtölu.

 • algengasta fleirtöluendingin í karlkyni er -ar
 • algengasta fleirtöluendingin í kvenkyni er -ur

Það er auðvitað sjálfsagt að taka það fram að beygingarflokkarnir eru miklu fleiri en það er best að byrja á almennum reglum og koma að undantekningunum síðar í náminu.

Að kenna þolfallið

Þegar kemur að því að setja fallorð inn í setningar er engin leið að komast hjá fallbeygingunni. Þolfallið er algengasta fallið í íslenskunni. Það er best að þjálfa þolfallið með:

 • notkun persónufornafnanna
 • og nafnorða án greinis.

Þess vegna er gott að nota orðaforða um mat. Þegar nememdur koma lengra í náminu er gott að bæta við orðaforða um húsmuni og fylgihluti. Þágufallið er miklu algengara í setningum um föt og þess vegna betra að geyma þann orðaforða þar til nemendur eru tilbúnir til að bæta við sig þágufallinu.

sagnirogtholfall
Þolfallssetningar um mat

Góð leið til að þjálfa þolfallið með nafnorðum án greinis er að láta nemendur mynda setningar eins og þær sem eru taldar upp hér:

 • Ég á  …
 • Ég nota …
 • Ég þarf …
 • Mig langar í …
 • Mig vantar  …
 • Ég borða, elda, baka, steiki, sýð …
 • Ég ætla að kaupa …
 • Ég ætla að fá (mér) …

Það má bæta inn í þessar setningar atviksorðunum: ekki, alltaf, stundum og aldrei til að þjálfa að atviksorðið kemur á eftir fyrstu sögninni í setningunni.

Það má líka bæta við forsetningaliðum um tíma eins og: á morgnana, í hádeginu, á kvöldin, um helgar, á hverjum degi og svo framvegis. Þessi tímaorð eru líka góð til að þjálfa nútíðina og staðsetningu sagnarinnar í setningum. Hér er átt við að ef setningin er látin byrja á forsetningarliðnum þá heldur sögnin öðru sætinu en persónufornafnið (frumlagið) færist aftur í þriðja sætið.

Að kenna þágufallið

Til að kenna þágufallið er best að nota orðaforða um mat og föt. Það er auðvitað gott að nota orðaforða um húsmuni og staði til æfingar á þágufallinu en þar þarf í mörgum tilvikum að nota greini og þess vegna getur verið heppilegra að geyma þann orðaforða þar til nemendur eru tilbúnir til að bæta greininum við kunnáttu sína.

Góð leið til að þjálfa þágufallið er að láta nemendur mynda setningar með sögnunum að:

 • hjálpa + persónufornafn
 • henda + orðaforði um mat og föt
 • gleyma + orðaforði um fylgihluti og föt
 • týna + orðaforði um fylgihluti og föt

Ef setningarnar eiga að vera í nútíð er aðgengilegt að nota tímaorðin sem eru talin í kaflanum hér á undan. Það er önnur leið til að þjálfa þágufallið þar sem greinirinn kemur ekki við sögu en það er með setningum eins og:

 • Viltu koma/fara með + persónufornafn
 • Þú mátt/átt að sitja við hliðina á + persónufornafn
 • Ég er í + orðaforði um föt
 • Ég hef áhuga á + nafnorð (oftast í fleirtölu)

Hér má líka benda á forsetninguna með sem stýrir þágufalli þegar er verið að tala um eitthvað sem fylgir einhverju öðru:

 • Ég borða (orð um mat í þolfalli) með + þágufall
 • Ég ætla að fá (orð um mat, föt eða húsmuni í þolfalli) með + þágufall
 • Ég er í (orð um föt) með + þágufall.
Hér eru aðeins taldar upp algengustu forsetningar og sagnir sem stýra þágufalli.

Sögnunum henda, gleyma og týna fylgja oftast nafnorð með greini. Þetta á líka við um staðarforsetningarnar í, á, yfir og undir. Þeim fylgir líka greinir í þolfallinu. Til að æfa greininn í báðum föllum er gott að nota þessar staðarforsetningar með orðaforða um staði (sjá hérna neðar).

Spurningin um muninn á þolfalli og þágufalli

Nemendur spyrja gjarnan hvernig þau geta fundið út hvort og hvenær orð eiga að standa í þolfalli og þágufalli. Í byrjun má útskýra það þannig að:

 • þegar þú gerir eitthvað við það sem fallorðið stendur fyrir þá á það vera í þolfalli
 • þegar þú gerir eitthvað fyrir það sem fallorðið stendur fyrir þá á það að vera í þágufalli

Þetta útskýrir alls ekki allt og rétt að benda á það, að í sambandi við seinna dæmið, þá á þetta oftast bara við þegar fallorðið stendur fyrir persónu en ekki þegar átt er við hluti. Þetta er hins vegar ekki algilt. Sennilega er besta leiðin sú að læra hvaða sagnir og hvaða forsetningar stýra þágufalli. Hér þarf að sjálfsögðu að muna eftir að sumar:

 • sagnir geta tekið með sér tvö andlög en þar er þiggjandinn eða persónan alltaf í þágufalli.
 • forsetningar stýra þolfalli eða þágufalli og er það bundið merkingu og/eða samhenginu sem forsetningarliðurinn stendur í.

Beygingarendingarnar í þolfalli

Í hefðbundinni málfræðikennslu myndum við tala um að nafnorðin, sem hafa veika beygingu, hafi bara tvær myndir þegar þau standa án greinis: nefnifallið og aukaföllin. Í kennslu íslensku sem öðru máli er betra að tala um i-karlkynsorðin og a-kvenkynsorðin og að endingar þessara orða í þágufalli og eignarfalli séu eins og þolfallið.

Af því þessir flokkar eru einfaldastir er ekki óeðlilegt að byrja á því að einbeita sér að því að byggja upp orðaforða í þessum beygingarflokkum og þjálfa nemendur í notkun þeirra í setningagerð.

Mynd sem sýnir beygingarendingar i-karlkynsorðanna og a-kvenkynsorðanna í öllum föllum eintölu og nefnifalli fleirtölu. Kvenkynsorðin eru eins í nefnifalli og þolfalli fleirtölu. Í karlkynsorðunum er errið tekið af nefnifallinu.

Þegar kemur að orðflokkunum sem er hefð fyrir að kalla sterka beygingu vilja sumir benda á að meginreglan sé sú að þau séu endingarlaus í þolfalli. Kvenkynsorðin sem enda á -ing eru að minnsta kosti undantekning frá þessu og þar af leiðandi kannski þægilegra að fjalla aðeins um hvern beygingarflokk fyrir sig í byrjun.

Beygingarflokkarnir sem koma fram á þessari mynd eru ur-karlkynsorðin sem hafa annars vegar fleirtöluendinguna -ar en hins vegar -ir, endingarlausu kvenkynsorðin sem hafa fleirtöluendinguna -ir, endingarlausu hvorugkynsorðin og i-hvorkugkynsorðin. Rétt er að vekja athygli á því að -ur karlkynsorðin skiptast í fleiri beygingarflokka en eru hér.

Eins og áður hefur komið fram er einfaldast að einbeita sér eingöngu að fimm algengustu beygingarflokkum nafnorða í byrjun. Þó er líklegt að það þurfi að nefna þá flokka sem eru litaðir gulir á myndinni hér að ofan. Það er ástæða til að benda á að þegar kemur að ur-karlkynsorðunum, sem hafa fleirtöluendinguna -ir, greinir eignarfallsendingin í eintölunni þessi karlkynsorð í tvo beygingarflokka:

 1. -ur, -s, -ir (til dæmis dalur og sveppur)
 2. -ur, -ar, -ir (til dæmis vinur og mánuður)

Það má líka vekja athygli á því að beygingarflokkurinn sem er kallaður hér endingarlaus kvenkynsorð hefur sömu beygingarendingar í eintölunni en greinast í þrjá beygingarflokka þegar kemur að fleirtölunni í nefnifalli:

 1. -, -ar, -ir eins og búð og mynd
 2. -, -ar, -ar eins og vél og regnhlíf
 3. -, -ar, -ur eins og bók og sæng

Í öðrum beygingarflokknum er rétt að vekja athygli á kvenkynsorðunum sem hafa viðskeytið -ing en þau skera sig frá þessum beygingarflokki fyrir það að þau hafa beygingarendinguna -u í þolfalli og þágufalli eintölu.

Beygingarendingar í þágufalli

Það sem er erfiðast við að kenna þágufallið án greinis eru karlkynsorðin:

 • sum fá endinguna -i,
 • sum alls ekki
 • í einhverjum tilvikum er það valfrjálst.

Sumir hafa haldið því fram að þegar þeir beygingarflokkar, sem um ræðir, innihalda karlkynsorð sem hafa tvö samhljóð í stofni eigi að vera -i en ef samhljóðið er bara eitt þá sé engin ending. Þetta er ekki rétt eins og eftirfarandi dæmi sýna:

 • Ég er að koma frá vini mínum
 • Ég týndi hring

Þegar kemur að greininum vandast málið enn frekar. Nafnorðin bátur og diskur eru tekin hér sem dæmi:

 • Ég kom á bát/báti
 • Ég kom á bátnum (mínum)
 • Ég gleymdi diski
 • Ég gleymdi diskinum/disknum (mínum)

Það má vera að það sé algengara að sleppa þágufallsendingunni þegar samhljóðið er bara eitt og þess vegna getur það stutt þá sem eru að læra íslensku sem annað mál að benda á ofangreint. Það þarf þó að ítreka það að þetta er alls ekki áreiðanlegur vegvísir í náminu.

Í endingarlausu hvorugkynsorðunum má hins vegar segja að beygingarendingin er alltaf -i þó það séu örfáar undantekningar eins og í orðunum tré og hné. Sumir myndu eflaust vilja sleppa því í spagettíi og tívolíi en þar sem það á að vera -i í þágufallinu af píanói er sennilega einfaldara að telja þessi orð ekki meðal undantekninganna. Færri undantekningar gera íslenskunámið einfaldara.

Eins og kemur fram á þessari mynd eru það endingarlausu hvorugkynsorðin og ur-karlkynsorðin sem þarf að æfa sérstaklega þegar kemur að þágufallinu. Þessi atriði er gott að æfa með sögnunum að henda, gleyma og týna.

Eins og kemur væntanlega vel fram á myndinni hér að ofan þá beygjast ur-karlkynsorðin, sem var talað um í byrjun þessa kafla, alveg eins í eintölunni.

Beyging greinisins

Greinirinn er alls ekki það einfaldasta í kennslu íslensku sem annars máls sem stendur í beinu samhengi við það að nemendum gengur oft erfiðlega að átta sig á því hvenær á að nota hann. Þeir eiga líka erfitt með að átta sig á því hvernig hann bætist við nafnorðin. Þetta á einkum við um nafnorðin sem enda á sérhljóði.

Það sem er rautt á þessari mynd er hinn eiginlega greinir sem er bætt aftan á nafnorðin í töflunni.

Hér að neðan er svo beyging greinisins í öllum kynjum, föllum og báðum tölunum.

Það sem er litað gult og grænt á þessari mynd er þannig til að vekja athygli á að þetta er eins og óháð kyni.

Það þarf að taka það sérstaklega fram að í þágufalli fleirtölu þá bætist greinirinn ekki beint aftan á beygingarendinguna. Emmið í þágufallsendingunni fellur burt þegar greinirinn bætist aftan á nafnorðið. Hér er skýringardæmi til að draga það betur fram hvað er átt við:

 • Ég gleymdi koddum / peysum / stígvélum
 • Ég gleymdi koddunum / peysunum / stígvélunum

Emmin sem eru lituð rauð í fyrra dæminu falla brott þegar greininum er bætt við þessi orð eins og sést í seinna dæminu.

Að kenna greininn

Til að æfa greininn er aðgengilegt að nota orðaforða um föt til dæmis með þessum setningum:

 • Þetta er (fataorð með greini í nefnifalli) minn / mín / mitt.
 • Ég fer í (fataorð með greini í þolfalli) minn /mína / mitt.
 • Ég fer úr (fataorð með greini í þágufalli).

Það er líka gott að nota forsetningarnar í og á með orðaforða um staði. Til dæmis:

 • Ég fer í skólann / garðinn / vinnuna / búðina /  leikhúsið / afmælið (hreyfing)
 • Ég er í skólanum / garðinum / vinnunni / búðinni / leikhúsinu / afmælinu (kyrrstaða)

Hljóðbreytingar í nafnorðum

Í sambandi við fleirtölu- og fallbeygingu nafnorða er óhjákvæmilegt að tala eitthvað um hljóðbreytingar.

Í fleirtölunni þarf að benda á að ef a-kvenkynsorðin og endingarlausu hvorugkynsorðin hafa a í stofni verður það ö í fleirtölunni. Það þarf líka að undirstrika að þessi hljóðbreyting á ekki við um á og au sem í augum þeirra, sem eru að læra íslensku sem annað mál, gætu verið sama sérhljóð og a.

Þegar kemur að fallbeygingunni þarf að skoða a-kvenkynsorðin sérstaklega. Það getur þurft nokkra æfingu að ná því að þegar kvenkynsorðin, sem tilheyra þessum beygingarflokki, hafa a í stofni þá breytist það í ö í þolfallinu og öðrum aukaföllum.

Algengasta hljóðbreytingin er a -> ö. Það þarf líka að vekja sérstaklega athygli á að þessi hljóðbreyting gengur stundum í hina áttina eins og í gjöf – gjafir og öxl – axlir. Þessi hljóðbreyting kemur auk þess fram í nokkrum karlkynsorðum eins og pakki sem verður pökkum í þágufalli fleirtölu.

Þegar kemur að ur-karlkynsorðunum sem hafa fleirtöluendinguna -ir bætast við fleiri og flóknari hljóðbreytingar:

 1. ö -> e -> a eins og í köttur – kattar – kettir og ávöxtur – ávaxtar – ávextir
 2. jö -> i -> ja fjarðar eins og í frður – fjarðar – firðir

Seinni hljóðbreytingin skiptir sennilega meira máli þar sem nokkrir staðir á landinu hafa fjörður í nafninu sínu. Hér er eitt dæmi:

 • Þetta er Hafnarfrður
 • Ég tala um Hafnarf
 • Ég bý í Hafnarfirði
 • Ég ætla til Hafnarfjarðar

Sennilega er það orðið algengarar að málnotendur tali um að fara í Hafnarfjörð en til Hafnarfjarðar.

Að lokum skal það nefnt að endingarnar -ar og -s eru algengastar í eignarfallinu ef nafnorðin sem enda á sérhljóði í öllum föllum eintölunnar eru undanskilin. Það er hins vegar ein mikilvæg undantekning sem er eignarfallsendingin -ur eins og í þeim staðarheitum sem enda á -vík.

Til að æfa eignarfallið er aðgengilegast að nota forsetninguna til með staðarheitum, persónufornöfnum og orðaforða um persónur. Það má líka nota sögnina að sakna til að æfa greininn í eignarfalli.

Uppfært 28. september 2018