Sagnorð

Undir krækjunum hér að neðan eru  pdf-skjöl sem þér er frjálst að prenta út og nota.

 • Orðaforðaæfiningin er ætluð byrjendum
 • Æfingarnar í veiku sögnunum nota ég á 1. (nútíðin) og 2. stigi (þátíðin)
 • Æfingarnar í hljóðbreytingunum nota ég á 2. til 4. stigi.
 • Rammann eða töfluna yfir nútíð sterkra sagna hef ég notað bæði á 3. og 5. stigi
 • Rammann eða töfluna yfir þátíð stekra sagna í eintölu hef ég notað á 4. stigi

Orðaforði

Orðaforði, persónufornöfnin og sögnin að vera

Veikar sagnir

Nútíð

Þátíð

Sterkar sagnir

Hljóðbreytingar I (a > ö í 1.p.ft.)

Hljóðbreytingar II (a, o og ö > e)

Hljóðbreytingar III (ú, jú og jó > ý)

Hljóðbreytingar IV (sjaldgæfari eins og á > æ og au > ey)

Töflur

Rammi fyrir sterkar sagnir í nútíð

Rammi fyrir sterkar sagnir í þátíð eintölu

Áður en æfingarnar eru lagðar fyrir þarf að fara í efnið sem þær reyna á.

 • Það er hægt að nýta myndorðspjöldin til að leggja inn grunnorðaforða.
 • Áður en æfingarnar í veiku sögnunum eru lagðar fyrir þurfa nemendur að hafa kynnst persónubeygingu a- og i-sagna (eða reglum 1 og 2).
 • Það er eðlilegt að byrja á nútíð veikra sagna áður en kemur að beygingu sterku sagnanna.
 • Það er líka eðlilegt að byrja á þátíð veikra sagna áður en kemur að þátíð sterkra sagna.

Sterku sagnirnar eru erfiðari vegna hljóðbreytinganna sem eru nær algildar í þátíðinni og algengar í nútíðinni. Hins vegar eru sagnirnar að vera, að fara og að koma svo algengar í málinu að það er ekki hægt að komast hjá því að kynna þær fyrir nemendum snemma í íslenskunáminu.

Hér er svolítil umfjöllun um æfingarnar í sterku sögnunum en þær eru allar í nútíð.

 • Hljóðbreytingin a > ö er mjög algeng í nafnorðum og lýsingarorðum líka og þess vegna ekki útilokað að nemendur séu fljótir að átta sig á henni
 • Það er vert að benda á að það verða engar hljóðbreytingar í sterku sögnunum sem hafa e, i/y, í/ý, ei/ey eða æ í stofni
 • Það er gott að nota rammann/töfluna til að láta nemendur skoða hvar hljóðbreytingar verða og átta sig á því hvernig þær eru
 • Mín reynsla er að nemendur eru fljótastir að ná hljóðbreytingunum þar sem sérhljóðarnir verða e í nútíðinni í eintölu
 • Það hefur komið mér sérstaklega á óvart hvernig nemendur mínir forðast eða læra ekki sagnirnar þar sem nútíðin hefur ý í stofni
 • Hljóðbreytingarnar sem eru í fjórðu æfingunni eru sjaldgæfastar en þó hefur æfingin ekki reynst eins erfið og búast mætti við.

Ég hef prófað að láta nemendur vinna með 0-sagnorðaspjöldin (sterku sagnirnar) og flokka þau niður eftir því hvernig þau breytast í eintölu nútíðar og – þátíðar. Það er gott að nota töflurnar eða rammana til þess (gott að ljósrita á A3-blað).

 • Á 3. stigi læt ég nemendur aðeins hafa sagnirnar sem halda sama stofnsérhljóðinu í nútíðinni, þær sem fá e og þær sem fá ý.
 • Á 4. stigi fengu nemendur allar sagninar sem hafa sterka beygingu í þátíðinni. Það eru nokkrar sem þarf að útskýra sérstaklega eins og þær sem hafa veika beygingu þegar hún á við um gerandann (Konan sleppti fuglinum úr búrinu) en sterka þegar hún á um þolandann (Fuglinn slapp úr búrinu). Það þarf líka að útskýra sagnir eins og að binda og springa af því stofn þeirra breytist svo mikið í þátíð eintölunni.
 • Á 5. stigi fengu nemendur allar. Þar gekk verst með sagnirnar sem eru í æfingu fjögur.

Hér ber að hafa það í huga að nemendur og hópar eru misjafnir og sjálfsagt að aðlaga sig eitthvað að því.

Beygingarflokkar sagna

Málfræðin skiptir íslenskum sögnun í fjóra flokka:

 • veikar sagnir
 • sterkar sagnir
 • núþálegar sagnir
 • ri-sagnir

Það er ekki víst að þessi flokkun segi þeim, sem eru að læra íslensku sem annað mál, mikið. Þess vegna má byrja á því að tala um reglulegar – og óreglulegar sagnir þar til kemur að sterku sögnunum. Svo má ekki gleyma að sumar sagnir hafa það sem er kallað blandaða beygingu. Þessar sagnir virðast þvælast töluvert fyrir mínum nemendum.

Nútíð og þátíð

Í byrjun er líka gott að benda nemendum á að í íslensku eru bara tvær tíðir; nútíð og þátíð, þó við höfum þrjú horf; nútíð, þátíð og framtíð.

Það er mikill stuðningur af því fyrir byrjendur að þeir geta talað um þessi horf eða tíðir í einföldum setningum með hjálparsögnum:

 • Ég er að …
 • Ég var að …
 • Ég ætla að …

Þannig geta þeir byrjað á því að læra beygingu tveggja sagna og einbeitt sér að því að byggja upp orðaforða í sögnum áður en kemur að beygingu þeirra í nútíð og þátíð.

Persónubeyging sagna

Í hefðbundinni kennslu íslenskra sagna er talað um:

 • a-sagnir
 • i-sagnir
 • 0-sagnir (núll sagnir)

Þessi flokkun fer eftir endingum sagnanna í 1. persónu, eintölu í nútíð. Fyrstu flokkarnir tilheyra veikum sögnum sem eru gjarnan kallaðir: regla 1 og regla 2 í kennslu íslensku sem öðru máli. Sterku sögnunum er svo skipt í reglu 3, 4 og 5 og fer skiptingin eftir endingum þeirra í 2. og 3. persónu eintölu.

Það er spurning hversu góð þessi tölustafaskipting er þar sem núþálegu – og ri-sagnirnar standa fyrir utan hana. Það er þó gott að styðjast við slíka flokkun í byrjendakennslu.

Uppfært 28. september 2018