Samtalsspjöldin

Samtalsspjöldin komu út í nóvember 2019 með styrk frá Atvinnumálum kvenna.

Öskjurnar þrjár
Samtalsspjöldin eru ætluð byrjendum sem eru að læra íslensku sem annað mál og þeim sem vilja aðstoða þá við námið

Þeir sem vilja panta eða spyrjast fyrir um vöruna er bent á að hafa samband.

 • hver askja kostar 2.000,- kr
 • settið saman á 5.700,- kr. (3 öskjur saman í pakka)
 • póstsendingaringarkostnaður fer eftir verðskrá Póstsins
  • 975,- kr. fyrir hverja sendingu (1-12 öskjur)

Almennt þarf að greiða vöruna fyrir afhendingu. Skólar og opinberar stofnanir eru undanþegin en greiða samkvæmt reikningi.


Nánar um vöruna

Smelltu á viðkomandi hnapp til að lesa meira um það sem þú ert að leita að


Lýsing

Það eru 28 spjöld í hverri öskju með spurningum og svörum.

Ýttu á örvarhnappana til að fletta

Framan á spjöldunum eru spurningar með litadoppum sem gefa þyngdarstig spurninganna til kynna. Í mörgum tilvikum er líka mynd til að auðvelda skilning á kjarna spurningarinnar.

Aftan á spjöldunum eru svör eða tillögur að svörum. Sums staðar eru tákn og eru þau útskýrð í leiðbeiningabæklingi sem fylgir hverri öskju. Algengustu táknin eru: undirstrikanir, feitletranir, textalitir, línur, svigar og hornklofar.

Leiðbeiningabæklingur á íslensku og ensku með skýringum á táknum og málfræði eru í hverri öskju.

Fyrir hverja?

Samtalsspjöldin eru ætluð byrjendum sem eru að læra íslensku sem annað mál og:

 1. vilja æfa það sem þeir hafa lært í samræðum.
 2. langar til að tala íslensku en vantar orðaforða til að halda uppi samræðum.

Samtalsspjöldin eru líka fyrir þá sem tala íslensku og:

 1. langar til að tala við þá sem er að læra tungumálið en vita ekki hvar á að byrja.
 2. vilja aðstoða þá sem eru að læra tungumálið en vantar verkefni/verkfæri til þess.

Hvernig?

Með samtalsspjöldunum er hægt að bjóða upp á samtal eða yfirheyrslu:

 • samtal: Þátttakendur skipta samtalsspjöldunum á milli sín og skiptast á að spyrja og svara.
  Þegar búið er að fara í gegnum bunkann sem viðkomandi fékk í byrjun skiptast þátttakendur á bunka og halda áfram þangað til báðir/allir hafa bæði spurt og svarað spurningunum.
 • yfirheyrsla: Annar spyr og hinn svarar. Að sjálfsögðu er svo hægt að skipta um hlutverk þannig að báðir hafi spurt og svarað þegar upp er staðið.

Hugmyndir fyrir hópa:

 • flöskustútur: deila spurningum á alla, snúa síðan flösku og sá sem flöskustúturinn miðar á svarar einni spurningu
 • sá sem er með boltann svarar: deila spurningu spurningum á alla, þátttakendur henda bolta á þann sem þeir vilja að svari næst
 • koll af kolli: deila spurningum á alla, einn byrjar að spyrja þann sem er honum á hægri hönd spurningar sem hann er með, sá svarar og spyr svo næsta einnar af sínum spurningum
 • draga og svara: spjöldin eru sett saman í einn stokk, sá sem er fyrstur dregur efsta spjaldið og svarar spurningunni. Það má bæta við þennan leik og láta þátttakendur safna spjöldunum sem þeir svara og telja svo stigin í samræmi við litadoppurnar í lokin.

Hvar?

Það er hægt að nota samtalsspjöldin heima, í skólanum, í vinnunni og jafnvel á kaffihúsinu. Það er heldur ekki ólíklegt að það megi nota þau víðar.

Heima geta börn, sem eru að læra íslensku sem annað mál í skólanum, aðstoðað foreldra sína. Makar, sem hafa íslensku að móðurmáli eða eru komnir lengra í íslenskunáminu, geta líka liðsinnt þeim sem eru að byrja.

Í skólanum er hægt að finna upp á ýmsum leikjum þar sem tveir eða fleiri vinna saman. Sjá hugmyndir hér að ofan.

Í vinnunni er hægt að nota matarhlé og kaffipásur til að bjóða upp á spjall með samtalsspjöldunum. Vinnustaðurinn getur látið samtalsspjöldin liggja á kaffistofunni eða í matsalnum og svo geta þeir sem eru að læra – eða þeir sem vilja aðstoða vinnufélaga sem eru að læra – tekið spjöldin með sér í vinnuna.

Á kaffihúsinu er hægt að eiga stefnumót við vini og kunningja. Það er þægilegt að stinga öskjunum í tösku eða vasa og taka þau með sér. Mæltu þér mót við einhvern sem getur aðstoðað þig að læra og taktu spjöldin með þér til að tryggja að samtalið snúist ekki strax yfir á ensku!

Ef þú talar íslensku getur þú líka notað kaffihúsið eða annan vettvang til að aðstoða vini og/eða spjallfélaga (e. tandem partner), sem eru að læra tungumálið, með því að nota samtalsspjöldin. Þú þarft ekki að vera sérfræðingur í málfræði. Sá sem er að læra nýtt tungumál þarf æfingu í að tala. Hann fer í skóla ef hann vil læra málfræði.

Allir sem vilja aðstoða þá, sem eru að læra íslensku sem annað mál, geta nýtt samtalsspjöldin til þess. Það er gott að fara í gegnum sama samtalið aftur og aftur enda fátt mikilvægara í öllu námi en endurtekningin.


Ítarefni

Smelltu á efnisflokkinn sem þú vilt skoða nánar


Fyrsta samtalið

Spurningarnar í þessari öskju snúast um algengar spurningar við fyrstu kynni. Aðrar spurningar eru aðallega já- og nei-spurningar. Það er gott fyrir byrjendur að æfa sig á þeim til að æfa bæði framburð og grundvallarorðaröð í setningum.

Skýringar

➤ Aftan á spjöldunum með þessum spurningum er orðið ekki feitletrað. Þetta er gert til að vekja athygli á að atviksorðið kemur venjulega strax á eftir sögninni. Í sumum tilvikum er hægt að velja á milli þess að nota ekki eða aldrei. Þetta er sýnt með skástriki: „ekki/aldrei“ aftan á spjöldunum.

➤ Í tveimur tilvikum eru fornöfn í bláum lit. Það er til að vekja athygli á því að það er hægt að nota þau í stað þess að endurtaka nafnorðið sem fornafnið stendur fyrir. Þegar fornöfnin standa í aukafalli eða líta ekki eins út í nefnifalli og þolfalli eru þau undirstrikuð.

➤ Þrjú spjöld í fyrstu öskjunni eru með tákninu, sem er hér til hægri, aftan á. Táknið gefur það til kynna að eitthvað er öðru vísi, erfiðara og/eða það þurfi að fletta upp á orðinu eða atriðinu sem um ræðir. Það má líka spyrja vin sem talar íslensku.

 1. Nafnorðið bíll hefur endinguna –l eingöngu í nefnifalli, eintölu. Þetta er óvenjulegur og lítill beygingarflokkur. Þess vegna þarf að læra þetta orð sérstaklega. Það má þó minna á að stóll beygist alveg eins.
 1. Einfaldasta leiðin til að svara spurningunni: „Hvað segir þú (gott)?“ er að nota lýsingarorð [lo]. Inni á Quizlet er góður orðaforði og æfing til að svara þessari og fleiri áþekkum spurningin. Æfingin heitir: Lýsingarorð eða atviksorð?
 1. Til að stafa nafnið sitt þarf fyrst að læra stafrófið. Það er hægt að finna stafrófið til dæmis í bókinni Íslensku fyrir alla 1 (kafli 2). Til að æfa framburðinn á stafrófinu er gott að hlusta á hljóðskrá númer 119.

➤ Þó svörin séu aftan á spjöldunum og þar með rétt beyging sagnanna, sem koma fyrir í fyrsta samtalinu, getur verið gott að vita eitthvað um beygingarendingar sagna í nútíð eintölu. Samtölin eru í 1. og 2. persónu og þess vegna eru aðeins þær persónuendingar hafðar með á myndinni hér að neðan yfir beygingarflokka sagna.

Beygingarendingar sagna í 1. persónunni eru hafðar rauðar til frekari aðgreiningar

Aukaverkefni með öskjunni Fyrsta samtalið

Nokkrar viðbótaræfingar fyrir byrjendur á Quizlet-svæði Íslenskunámunnar. Hér eru eingöngu talin þau verkefni sem tengjast fyrstu öskjunni best.

Hvar áttu heima? Hvað ætlar þú að gera á morgun?
Spurt og svarað Hvað varstu að gera í gær?
Hvað ertu að gera núna? Hvert ætlar þú að fara á morgun?
Minn og þinn og nafnorð með greini Hvert fórstu í gær?
a-sagnir í nútíð eintölu (regla 1) I Hvernig er spurningin?

Matur

Efnið í annarri öskjunni snýst aðallega um:

 • að safna byrjendaorðaforða um mat
 • æfa þolfallið í fimm algengustu beygingarflokkum nafnorða
 • nokkur tíðaratviksorð (alltaf, oft, stundum, sjaldan og aldrei)
 • að æfa nútíð nokkurra algengra sagna eins og: borða, nota, panta, ætla, kaupa, drekka, hafa, fá, eiga, mega og vilja)
 • ópersónulegu sagnirnar að finnast og langa koma fyrir
 • lýsingarorðin góður og vondur koma fyrir

Skýringar

➤ Kynið sem lýsingarorðin lýsa kemur fram í mismunandi endingum lýsingarorðanna. Það er þægilegast að byrja á lýsingarorðunum sem hafa sömu kynendingar og lýsingarorðin góður og vondur (sjá töflu 1) vegna þess að þessar endingar eru algengastar.

karlkyn (kk)kvenkyn (kvk)hvorugkyn (hk)
-ur-t
Tafla 1

➤ Óákveðnu fornöfnin ekkert og ekki neitt koma fyrir. Þau eru undirstrikuð til að benda á að þau fallbeygjast. Óákveðnu fornöfnin breytast eftir kyni (sjá töflu 2) eins lýsingarorðin. Hins vegar eru enginn [eín-gin) og engin [eín-gin] alveg eins í framburði.

karlkynkvenkynhvorugkyn
enginnenginekkert
neinnneinneitt
Tafla 2

➤ Öll nafnorðin í öskjunni tilheyra fimm algengustu beygingarflokkum íslensku nema í tveimur undantekningartilvikum. Sagnir og forsetningar ákveða föllin en það er ráðlegra að vera ekki að hugsa of mikið um það í fyrstu skrefunum. Það er hins vegar mikilvægt að vita að þolfallið er langalgengasta fallið í íslensku. Nefnifallið er algengast í setningum eins og:

 • Þetta er __ [nf]. Dæmi: Þetta er hamborgari.
 • Mér finnst __ [nf]. Dæmi: Mér finnst hamborgari góður.

Beygingarendingar algegnustu beygingarflokka nafnorða í þolfalli, eintölu.

Þolfallsendingarnar eru hafðar rauðar á myndinni til frekari aðgreiningar

Annað sem þarf að hafa í huga er hljóðbreytingin í þeim kvenkynsorðum sem hafa a í stofni; það er að a > ö. Dæmi: Þetta er kaka > Ég borða köku. Það má líka benda á að öll nafnorð sem hafa enga endingu eins og brauð (hk), mjólk (kvk) og ís (kk) eru eins í nefnifalli og þolfalli óháð kyni.

Tíðaratviksorðin sem koma fyrir eru er skýrð í leiðbeiningabæklingnum nema oftast (e: almost always). Þegar atviksorðin standa innan sviga eru þau ekki nauðsynleg. Sviginn merkir alltaf að það má sleppa því sem stendur inni í honum. Stundum eru þrípunktar innan svigans en þrípunktarnir standa alltaf fyrir það að það þarf að nota framhlið spjaldsins til að ljúka svarinu.

➤ Að lokum gæti verið mikilvægt að benda á að sögnin að ætla er hjálparsögn í framtíðarsetningum en ekki sögnin munu eins og Google Translation virðist stundum halda fram. Sagnirnar að langa og að finnast koma líka fyrir en þær beygjast ekki eftir persónum. Hins vegar eru persónufornöfnin í þolfalli með sögninni að langa (Dæmi: Mig langar) en þágufalli með sögninni að finnast (Dæmi: Mér finnst).

Það getur verið gott að átta sig á þessu í sambandi við sagnirnar að finnast, langa, vanta og vilja:

 • að finnast er tengt tilfinningu eða mati. Á ensku er hún oftast þýdd: I like
 • að langa er tengt löngun. Á ensku er hún oftast þýdd: I want
 • að vilja er tengt vali eða vilja. Á ensku er hún oftast þýdd: I want
 • að vanta er tengt einhverju sem má ekki missa sín. Á ensku er hún oftast þýdd: I need

Aukaverkefni með öskjunni Matur

Nokkrar framhaldæfingar á Quizlet með matarorðum. Æfingarnar eru allar ætlaðar nemendum á 1. stigi og snúast um að safna orðaforða, eintölu og fleirtölu fimm algengustu beygingarflokka nafnorð í íslensku. Eins eru einhverjar æfingar í þolfalli nafnorða í eintölu.

Safnaðu 30 nafnorðum um mat Nafnorð sem hafa enga fleirtölu
Safnaðu 30 orðum um ávexti og grænmeti Bara til í fleirtölu
Nafnorð sem eru eins í nefnifalli og þolfalli Í sjoppunni og á skyndibitastaðnum
Matarorð sem eru i-kk og a-kvk Hvað ætlarðu að hafa í matinn?
Safnaðu 20 matarorðum í fleirtölu Langar þig í mat? Fleirtala
Fiskur, kjöt og drykkur Hvað færðu þér í morgunmat?

Skólinn/Vinnan

Efnið í þriðju öskjunni gerir meiri kröfur til svarenda því þar er meira af opnum spurningum. Auk þess bjóða spurningarnar upp á fjölbreyttari svör en svardæmin aftan á spjöldunum gefa til kynna. Eins og þemaheitið gefur til kynna snúast margar spurninganna um það sem viðkemur skólanum og/eða vinnunni. Ítarlegra yfirlit yfir megináherslur:

 • orðaforði um daglegar athafnir
 • algengur orðaforði tengdur skóla og/eða vinnu
 • grunnorðaforði varðandi tíma (vikudagar og mánuðir)
 • haldið áfram að æfa nútíð algengra sagna
 • framtíð og þátíð með hjálparsögnunum að ætla og að vera
 • haldið áfram með ópersónulegu sagnirnar (finnast, langar og vantar)
 • beyging persónufornafnanna í 1. og 2. persónu

Skýringar

➤ Þar sem svörin eru gjarnan lengri en áður er algengara að dæmin aftan á spjöldunum endi á þrípunkti. Þrípunktar merkja að það sem vantar er orð eða orðasamband sem er að finna framan á viðkomandi spjaldi.

Það er líka algengara að svarendur þurfi að svara beinum spurningum þar sem þeir verða að fylla upp í svörin með eigin orðaforða eins og varðandi það hvað þeir ætla að gera eða voru að gera.

➤ Málfræðiatriðið sem er kynnt til sögunnar í leiðbeiningabæklingnum er beyging persónufornafnanna enda gott að læra hana snemma. Eins og áður eru persónufornöfnin blálituð, þar sem má nota þau í stað nafnorð, en þau eru feitletruð þar sem þau eru í aukaföllum.

➤ Fimm spurningar í þriðju öskjunni snúa að tíma; það er vikudögunum, mánuðunum og klukkunni. Í Íslensku fyrir alla er farið í vikudagana og mánuðina í kafla 5 og klukkuna í kafla 6.

➤ Táknið hér til hægri, sem stendur fyrir: flettu því upp eða spyrðu vin sem talar íslensku, kemur fyrir aftan á þremur spjöldum:

 1. Þar sem spurt er um það hvað klukkan er, er kafli 6 í Íslensku fyrir alla 1 góður grunnur. Eins má finna nokkrar æfingar inni á Quizlet sem tengjast klukkunni (sjá krækjulista undir aukaefni hérna neðst).
 1. Spuringin um vinnustaðinn er erfið þar sem það er talað um að vinna í skóla, búð og verksmiðju en á veitingastað, hóteli og verkstæði. Þegar nafn fyrirtækisins er notað flækist málið enn frekar þar sem almennt er talað um að vinna hjá fyrirtæki og stundum við stofnun eða rannsókn en áfram á hóteli, veitingastað, spítala og verkstæði. Í þessu tilviki er best að spyrja vin.
 1. A Síðasta dæmið er flóknast en þar er spurt: „Hvað gerir þú í skólanum/vinnunni?“ Aftan á spjaldinu er gert ráð fyrir þremur svarmöguleikum. Fyrsti möguleikinn er: a) „Ég læri __ [þf] í skólanum [þgf]“. Hér er gert ráð fyrir að heitið á faginu komi í þolfalli en auðvitað er líka hægt að segja: Ég læri margt eða jafnvel ekkert.
 1. B Næstu tveir möguleikar miðast við svör þeirra sem eru í vinnu. Þar er bæði hægt að svara með því að nefna starfstitilinn eða nota sögn og andlag [í þf eða þgf] til að lýsa því sem viðkomandi gerir. Dæmi 1: b) Ég er kennari [starfstitill í nf]. c) Ég kenni íslensku [þf]. Dæmi 2: b) Ég er sjúkraliði [starfstitill í nf]. c) Ég hjálpa sjúklingum [þgf].

➤ Það er rétt að minnast á að nafnorðin skóli og vinna koma oftar fyrir með greini í þessu samtali enda oftar notuð þannig. Þau eru ýmist í þolfalli og þágufalli og koma þannig fyrir bæði í spurningunum og svörunum (komast þó ekki alltaf fyrir í svardæmunum). Þess vegna getur verið gagnlegt að þekkja hvernig þessi orð beygjast í öllum föllum og ekki síður hvar orðið endar og greinirinn tekur við.

Beygingarendingarnar eru undirstrikaðar en greinirinn aukenndur með rauðu

Aukaverkefni með öskjunni Skólinn/Vinnan

Nokkur viðbótarverkefni inni á Quizlet sem tengjast megináherslum þriðju öskjunnar. Verkefnin eru aðallega ætluð 1. stiginu en þrjú þau síðustu eru fyrir 2. stig. Áfram er lögð áhersla á orðaforða þó viðfangsefnin séu almennt þyngri en í aukaverkefnum með fyrstu tveimur öskjunum.

Skólastofa Sagnirnar að vilja, langa og vanta
Skólataskan Tímaorð III
Sögnin að vinna Hvernig er skóladagurinn þinn?
Hvað er klukkan I Starfstitlar
Hvað er klukkan II Starfsheiti og skyldar sagnir

Uppfært 21. nóvember 2021