Þemakassar

Kassarnir komu út í nóvember 2021 með styrk frá Fræðslusjóði atvinnulífsins.

Tvö þemu: fata- (fatnaður og fylgihlutir) og staðarorð (staðir og staðsetningar) til að læra saman og hafa gaman

Þeir sem vilja kaupa vöruna er bent á að hafa samband og setja fram pöntun. Kannski viltu kaupa samtalsspjöldin líka.

 • hvor kassi kostar 7.500,- kr.
 • tveir saman kosta 14.700,- kr.
 • póstsendingarkosnaður fer eftir verðská Póstsins
  • hvor kassi er rétt rúmlega 500 gr.
  • fjórir kassar saman fara þar af leiðandi yfir 2 kg
 • hægt að sækja vöruna heim til höfundar (í Grafarvogi, Reykjavík)

Almennt þarf að greiða vöruna fyrir afhendingu. Skólar og opinberar stofnanir eru undanþegin en greiða samkvæmt reikningi.


Nánar um vöruna

Smelltu á viðkomandi hnapp til að lesa meira um það sem þú ert að leita að


Lýsing

Báðir kassarnir innhalda 200 myndorðaspjöld sem eru 8,2 x 8,2 sentimetrar á stærð. Kassarnir eru 10 x 9 x 8,5 sentimetrar að rúmmáli. Hvor kassi snýst um eitt afmarkað þema:

 • Staðarorð
 • Fataorð

Skipulag efnisins, uppsetning og frágangur er hins vegar eins enda viðfangsefnið það sama. Það er:

 • þolfall og þágufall án greinis
 • þolfall og þágufall með greini

Nafnorðunum er skipt niður í þrjá flokka eftir kynjum eins og í myndorðakassanum þar sem hvert kyn hefur sinn lit:

 • karlkynið er blátt
 • kvenkynið er bleikt
 • hvorugkynið er gult
dæmi úr staðarorðapakkanum
dæmi úr fataorðapakkanum
orð um staðsetningu með greini

Meiri hluti nafnorðanna eru úr fimm algengustu beygingarflokkunum. Upplýsingar um beygingarflokk og beygingu er að finna aftan á spjöldunum. Eins eru upplýsingar þar um hvaða forsetningu á að nota með viðkomandi nafnorði.

Staðarorðin

 • í
 • á

Stundum eru notuð staðaratviksorð með þessum forsetningum og er þeirra almennt getið. Dæmi: niður í, upp á og út á/í

Fataorðin

 • í
 • með

Í sumum tilvikum er viðbót skeytt framan á orðið eins og [rúllukraga]peysa en það er líka hægt að tala um peysu með rúllukraga.

Framan á spjöldunum eru litadoppur sem gefa meðal annars erfiðleikastig beygingarflokkanna til kynna. Litirnir eru gulur, rauður, grænn og blár. Beyging og/eða notkun nafnorðanna, sem eru merkt með gulri doppu, eru auðveldust en þau sem hafa bláa doppu erfiðust.

Leiðbeiningabæklingur með skýringum á táknum og annarri uppsetningu spjaldanna fylgir hvorum kassa. Þar eru líka upplýsingar um það fyrir hverja spöldin eru og hvernig megi nota þau í námi og leik. Ýtarlegri málfræðiskýringar er að finna á tveimur millispjöldum sem eru í kössunum. Leiðbeiningar og skýringar eru bæði á íslensku og ensku.

Fyrir hverja?

 • Nemendur á öllum aldri sem eru að læra íslensku sem annað mál.
 • Kennara, annað fagfólk og leiðbeinendur sem eru að vinna með þeim sem eru að læra íslensku sem annað mál.

Miðað er við að efnið nýtist í annarsmálskennslu í íslensku með fullorðnum nemendum sem eru á öðru stigi og ofar. Það er þó líklegt að það nýtist nemdendum og kennurum á öllum skólastigum svo og öðrum fagstéttum sem vinna með skjólstæðingum að aukinni tungumálafærni. Enið ætti einnig að nýtast nemendum til heima- og/eða sjálfsnáms.

Til hvers?

Markmið þemakassanna, eins og annarra myndorðaspjalda frá Íslenskunámunni, er að:

 • gera nám og kennslu auðveldari og skemmtilegri
 • gera málfræðina aðgengilegri
 • bjóða upp á athafnanám
 • bjóða upp á leiki sem allir geta tekið þátt í
 • auðvelda skilning á viðkomandi orðaforða
 • styðja við jafningjafræðslu og breytta endurtekningu í námi og kennslu

Hvar og hvernig?

Efnið nýtist til náms og leiks bæði með fagfólki og leiðbeinendum jafnt og fjölskyldu og vinum. Myndorðaspjöldin bjóða upp á fjölbreytta notkunarmöguleika. Hér eru nokkur þeirra talin:

Staðarorðin

 1. Hver þátttakandi fær eða dregur eitt spjald og svarar:
  a) hvert hann er að fara? eða
  b) hvar hann er?
  með því að nota staðarorðið sem hann hefur á hendi.
 2. Hægt er að nota spjöldin til að spila eins konar borðspil. Hver þátttakandi dregur eitt spjald í einu og býr til:
  a) setningu eða
  b) spurningu
  byggða á spjaldinu sem hann dregur (sjá setingaformúlublað hér neðar).
 3. Það má flokka spjöldin eftir:
  a) kyni
  b) beygingarflokkum
  c) hvort staðarorðin eru með eða án greinis
  d) litadoppum
  e) getustigi þátttakenda
  f) því sem þátttakendur vilja læra.
 4. Það er líka mögulegt að gefa stig eftir litadoppunum.
 5. Það er að sjálfsögðu hægt að útfæra og prjóna við þessar hugmyndir eftir bæði þátttakendum og aðstæðum.

Fataorðin

 1. Hver þáttakandi fær nokkur spjöld og svarar:
  a) hvernig hann ætlar að klæðast?
  b) hvernig hann er klæddur?
  með því að nota fataorðin sem hann hefur á hendi.
 2. Það er hægt að flokka spjöldin niður í nokkra flokka eins og:
  a) nærklæðnað
  b) efri parta
  c) neðri parta
  d) útiföt
  e) höfuðföt
  f) skófatnað
  g) fylgihluti
  h) snyrtivörur
  i) o.s.frv.
  láta svo þátttakendur draga spjald úr tilteknum fjölda og svara því hverju þeir ætla að klæðast við fyrirfram ákveðið tilefni eða veðuraðstæður.
 3. Það er tilvalið að nota sagnirnar að týna og gleyma með fataorðunum.
 4. Það mögulegt að gefa stig eftir litadoppunum.
 5. Það er líka hægt að útfæra og prjóna við þessar hugmyndir með því að bæta við lýsingarorðum (sjá lýsingarorðablað hér neðar).


Ítarefni

Smelltu á efnisflokkinn sem þú vilt skoða nánar


Staðarorðin

Viðfangsefni staðarorðakassans eru í meginatriðum tvö. Það er hvar og hvenær á að nota:

 1. þolfall og þágufall
 2. í eða á

Af 200 staðarorðaspjöldum eru 35 með greini. Með því er ýtt undir að föllin séu æfð með og án greinis. Í einhverjum tilvikum má taka greininn af en svo má bæta honum aftan á staðarorðin sem hafa engan greini í einhverjum tilvikum.

Þolfall eða þágufall

Sigurður Hermannsson hefur skrifað góða grein fyrir enskumælandi um það hvar á að nota þolfall og þágufall. Greinin er á vefsíðu hans Icelandic Made Easi(er) og heitir Cases and Motion. Það má líka útskýra þetta á myndrænan hátt.

Hreyfing → þolfall

Hvert ertu að fara?

Kyrrstaða → þágufall

Hvar ertu?

í eða á

Það er ekki eins auðvelt að útskýra hvar og hvenær á að nota í og á. Þó hafa þessar vísbendingar reynst hjálplegar:

í

garðar
ferðir
búðir
skólar
staðir/staðsetningar með skýra afmörkun1
prívatstaðir og -staðsetningar2

Dæmi:
1. í borg, í landi (á meginlandinu), í dal, í firði
2. í sumarbústað, í baði, í matarboði, í kirkju

á

stofnanir
söfn og sýningar
torg, stæði og stöðvar
opinberir þjónustustaðir, -hús, og -stofur
staðir/staðsetningar opin veðrum og vindi3
almenningsstaðir/-vettvangur4

Dæmi:
3. á eyju, á fjallstindi, á lyftara, á bát
4. á balli, á tónleikum, á fótboltaleik, á rúntinum

Yfirlitið hér að ofan er hvorki tæmandi né 100% en getur nýtst til að gefa þeim, sem eru að læra íslensku sem annað mál einhverjar, þokkalega nothæfar vísbendingar um það hvar á að nota þessar forsetningar.

Aukaefni og -æfingar

Undir krækjunum hér að neðan eru gagnvirkar æfingar í staðarorðunum. Efst eru tvö pdf-skjöl sem þér er frjálst að prenta út og nota. Örstutt lýsing á innihaldi þeirra:

 • Flokkaskipt yfirlitsblað með staðarorðum í þolfalli og þágufalli og hvort þau hafa forsetninguna í eða á
 • „setningaformúlublað“ með skýringamyndinni (hér ofar) um grundvallarregluna varðandi þolfallið og þágufallið ásamt beygingartöflu sem sýnir beygingarendingar í 8 beygingarflokkum nafnorða (nf., þf, og þgf. í et og ft.)
YfirlitsblaðListi með um 80 staðarorðum
SetningaformúlublaðSetningar og spurningar með staðarorðunum
Æfingar á Quizlet1. stig
Nafnorð með sögninni að fara
Hvert fórstu í gær?
Hvert ætlar þú að fara á morgun?
2. stig
Staðir með forsetningunni í
Staðir með forsetningunni á
Hvert á að setja hlutina?
Hvert eiga hlutirnir að fara?
Staðir
Hvert ertu að fara? hk.orð í þf.
Hvert er hann/hún að fara kvk.orð í þf.
Hvert eruð þið að fara i- og ur-kk.orð í þf.
Viltu koma með mér? Blönduð þf.æfing
Hvar ertu? Staðarorð í þgf.
Hk. og kk.staðarorð sem enda í -i í þgf.
Algeng staðarorð í þf. með greini.
Æfingar á Kahoot!2. stig
í eða á
Staðir í þolfalli og þágufalli
3. stig
Staðir: Þolfall eða þágufall?
Þágufall með greini
4. stig
Staðarorð í þolfalli eða þágufalli (kk og hk)
Þolfall eða þágufall með greininum
5. stig
Staðarorð í þágufalli með greini

Fataorðin

Viðfangsefni fataorðakassans eru í meginatriðum þrjú:

 1. vera í og vera með
 2. þolfall og þágufall
 3. flík með viðbót (þágufallið á viðbótinni)

Fataorðin henta mjög vel til að æfa þolfallið og þágufallið með og án greinis á skilvirkan hátt. Auk þess er möguleiki að æfa kyn og fallbeygingu lýsingarorðanna með þessum orðaforða (sjá útprentanlegt efni neðar á síðunni).

„vera með“ eða „vera í“

Það þarf að skýra muninn á því undir hvaða kringumstæðum við notum orðasamböndin að vera með og vera í. Hér er leið sem hefur reynst vel:

fara í – vera í – fara úr

fatnaður sem fer yfir búk eða útlimi; fatnaður fyrir hendur og fætur

setja á sig – vera með – taka af sér

fylgi- og aukahlutir; höfuðföt og hálsklæðnaður

Þolfall og þágufall

Fataorðin eru tilvalin til að skapa viðráðanlega stígandi í annarsmálsnámi í íslensku í sambandi við nafnorðabeyginguna enda er hún eins og innifalin í orðasamböndunum sem eru notuð með þeim:

Þolfall

fara í föt
setja á sig fylgihlut
vera með fylgihlut

Þolfall með greini

*taka af sér fylgihlutinn/fylgihlutina

Þágufall

vera í fötum
flík með viðbót/viðbótum1
1. a) peysa með rúllukraga, b) buxur með rassvösum

Þágufall með greini

*fara úr fötunum
*Ekki útilokað að hafa greini þegar farið er í fötin

Orðaforði yfir föt og fylgihluti bjóða líka upp á að æfa þágufallið með greini enn frekar með sögnunum að týna og gleyma. Eins er tilvalið að æfa sambeygingu lýsingarorða og nafnorða með fataorðunum enda henta þau einstaklega vel til að þjálfa alla helstu málfræðiþætti sem snúa að lýsingarorðunum.

Aukaefni og -æfingar

Undir krækjunum hér að neðan eru gagnvirkar æfingar í fataorðum. Efst eru þrjú pdf-skjöl sem þér er frjálst að prenta út og nota. Örstutt lýsing á innihaldi skjalanna:

 • Yfirlit yfir nokkur lýsingarorð til að nota um föt (litir, útlit, ástand, áferð/eiginleikar, stærð)
 • Yfirlit yfir tilefni
 • Yfilit yfir veðuraðstæður
LýsingarorðablaðListi með um 90 lýsingarorðum; flokkar og beyging
Í hverju ætlarðu?Nokkur tilefni
Veðuraðstæður (3. stig+)
Æfingar á Quizlet2. stig
Föt
Skófatnaður og yfirhafnir
Æfingar á Kahoot!3. stig
Föt og lýsingarorð í nefnifalli
4. stig
Lýstu fötunum
5. stig
Föt og lýsingarorð í þolfalli og þágufalli

Von á fleiri fataorðaæfingum

Uppfært 10. desember, 2021